Ferill 443. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 756  —  443. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um almannavarnir, nr. 82/2008 (borgaraleg skylda).

Frá dómsmálaráðherra.



1. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða II í lögunum orðast svo:
    Það er borgaraleg skylda starfsmanna opinberra aðila að gegna störfum í þágu almannavarna á hættustundu. Opinberum aðilum er heimilt að fela starfsmönnum tímabundið breyttar starfsskyldur og að flytja starfsmenn tímabundið milli starfsstöðva og opinberra aðila til að sinna verkefnum sem hafa forgang á hættustundu. Starfsmenn halda óbreyttum launakjörum við slíkar aðstæður. Þó er starfsmaður undanþeginn framangreindri skyldu sé heilsufari hans, eða annars einstaklings sem hann ber ábyrgð á, svo háttað að öryggi hans og heilsu sé stefnt í sérstaka hættu með því að fela honum að gegna slíkum störfum.
    Ákvæði þetta fellur úr gildi 1. janúar 2022.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Þann 30. mars 2020 voru samþykkt lög nr. 27/2020 um breytingu á lögum um almannavarnir, nr. 82/2008, um borgaralega skyldu starfsmanna opinberra aðila. Þar með var sett inn í lögin tímabundið bráðabirgðaákvæði sem felur í sér að það sé borgaraleg skylda starfsmanna opinberra aðila að gegna störfum í þágu almannavarna á hættustundu. Upphaflega gerði frumvarpið ráð fyrir að ákvæðið yrði varanleg heimild í 19. gr. laganna en í samræmi við nefndarálit var gerð sú breyting að ákvæðið yrði einungis sett til bráðabirgða og gilti það því aðeins til 1. janúar 2021. Hér er byggt á því frumvarpi og er ákvæðið efnislega samhljóða bráðabirgðaákvæði II í almannavarnalögunum nema gildistíma ákvæðisins er breytt. Vísað er til greinargerðar með áðurnefndum lögum nr. 27/2020 varðandi tilefni og nauðsyn lagasetningar og nefndarálits allsherjar- og menntamálanefndar með breytingartillögu sem samþykkt var við meðferð frumvarpsins á Alþingi (697. mál, þskj. 1185 á 150. lögþ.).
    Bráðabirgðaheimild sú sem frumvarpið mælir fyrir um hefur gefist vel. Hafa ýmsir opinberir aðilar, bæði á vegum sveitarfélaga og ríkis, óskað eftir að gildistími bráðabirgðaákvæðisins verði lengdur svo hægt verði að grípa til úrræða þess á hættustundu, enda ekki útséð um hvenær tekst að ráða niðurlögum kórónuveirufaraldursins. Auk þess nýtast úrræðin einnig þegar hættuástand skapast vegna annars konar almannavarnaástands. Fyrirhugað er að leggja fram nýtt frumvarp til breytinga á lögum um almannavarnir síðar á árinu 2021 þar sem lagt verður til að bráðabirgðaákvæði laganna um borgaralega skyldu verði varanlegt. Þá mun verða unnt að rökstyðja nánar nauðsyn slíks ákvæðis í almannavarnalögum.
    Frumvarp þetta snertir fyrst og fremst opinbera aðila og starfsmenn þeirra. Frumvarp til breytingalaga nr. 27/2020, sem eins og áður greinir er byggt á hér, var upphaflega samið í samvinnu dómsmálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið. Þá var haft samband við helstu forsvarsmenn samtaka starfsmanna opinberra aðila við gerð frumvarpsins. Umrætt frumvarp til laga nr. 27/2020 var samið á neyðarstigi almannavarna vegna útbreiðslu COVID-19-farsóttarinnar og því gafst ekki tækifæri til frekara samráðs við undirbúning þess. Enn hefur ekki náðst að ráða niðurlögum farsóttarinnar og óvíst hvenær það tekst þótt horfur séu betri en í mars 2020. Það er því full ástæða til að halda bráðabirgðaákvæði II í gildi enn um sinn og er lagt til að heimildin verði í gildi allt árið 2021 þ.e. til 1. janúar 2022. Erindi hafa borist frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Ríkislögreglustjóra þar sem mikil áhersla er lögð á að bráðabirgðaákvæðið verði framlengt vegna COVID-19 og ýmissa tilfæringa sem nauðsynlegar eru í starfsemi sveitarfélaga og viðbragðsaðila vegna farsóttarinnar.

    Frumvarpið tryggir að opinberir aðilar geti brugðist hratt og örugglega við á hættustundu og geti ráðstafað starfsmönnum sínum í verkefni er njóta forgangs. Mun það hafa mikilvæg og jákvæð áhrif til að sporna við hættuástandi og veita nauðsynlega þjónustu á hættustundu.
    Ekki er gert ráð fyrir því að frumvarp þetta muni hafa áhrif á heildarútgjöld ríkissjóðs en verði það ekki að lögum má gera ráð fyrir kostnaðaraukningu hjá sveitarfélögum við að halda úti nauðsynlegri velferðar- og menntaþjónustu og margs kyns óhagræði og töfum hjá bæði ríki og sveitarfélögum við að bregðast við breyttum aðstæðum í almannavarnaástandi.
    Tímabundnar tilfærslur í störfum eða breyting á starfsskyldum og vinnustöðum með heimild í þessu ákvæði eru ekki bundnar ákvæðum kjarasamninga enda er um að ræða borgaralega skyldu starfsmanna opinberra aðila. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að starfsmenn haldi óbreyttum launakjörum og fái greidda yfirvinnu ef starfsskyldur umfram hefðbundna vinnuskyldu þeirra aukast.